Pato nálgast Chelsea

Alexandro Pato virðist vera á leiðinni til Englands.
Alexandro Pato virðist vera á leiðinni til Englands. AFP

Brasilíumaðurinn Alexandre Pato er á leið til Englandsmeistara Chelsea. Samkvæmt Express hefur leikmaðurinn samþykkt tilboð Chelsea sem færir honum 35 þúsund pund í laun á viku. 

Pato, sem er 26 ára, leikur með Corinthians í heimalandi sínu en félögin eiga eftir að koma sér saman um kaupverðið.

Sjálfur vill Pato ólmur reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni. Áður en hann sprettur úr spori á grænum völlum á Englandi þurfa liðin að ná saman um kaupverð og hann þarf að fá atvinnuleyfi í Englandi. Einnig þarf Pato að komast í betra leikform en hann lék síðast knattspyrnu í nóvember.

Pato lék með ítalska félaginu AC Milan á árunum 2007 - 2012 og var talinn einn efnilegasti leikmaður heims. Ferill hans hefur verið á niðurleið síðustu ár og talið er að hann líti á England sem tækifæri til að sanna sig á nýjan leik.

mbl.is