Enn beðið eftir Sturridge

Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. AFP

Daniel Sturridge mun ekki spila með Liverpool á ný fyrr en eftir næstu mánaðamót en þetta staðfesti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri félagsins, á fréttamannafundi í dag.

Sturridge hefur verið með eindæmum óheppinn með meiðsli í hálft annað ár og hefur frá haustinu 2014 aðeins náð að spila 24 af 92 leikjum Liverpool. Nú síðast tognaði hann aftan í læri 6. desember og er enn ekki búinn að jafna sig til fulls af því.

„Okkar skylda er að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera hann nægilega sterkan á ný til að geta spilað úrvalsdeildarfótbolta. Það er alltaf gott að vera með leikmann eins og Daniel í sínum hópi og það er um leið aldrei gott að geta ekki nýtt krafta hans," sagði Klopp.

„Hann er ekki með liðinu sem stendur en við eigum eftir fullt af leikjum á þessu tímabili þar sem við getum vonandi notað hann. En hann verður allavega ekki með næstu tíu dagana," sagði Þjóðverjinn.

Það er því klárt að Sturridge spilar ekki gegn Norwich á morgun, gegn Stoke í deildabikarnum á þriðjudaginn eða gegn West Ham í bikarkeppninni annan laugardag. Hann kæmi fyrst til greina í deildaleik gegn Leicester 2. febrúar.

Háværar raddir hafa  verið um að Liverpool reyni að losa sig við Sturridge fljótlega vegna þessarar endalausu meiðslasögu hans.

mbl.is