Liverpool fyrir austan að versla?

Alex Teixeira til hægri.
Alex Teixeira til hægri. AFP

Samkvæmt breskum fjölmiðlum hefur Liverpool formlega sóst eftir því að kaupa einn af lykilmönnum úkraínska liðsins Shakhtar Donetsk. 

Um er að ræða brasilíska sóknarmanninn Alex Teixeira. Er hann 26 ára gamall og telja breskir blaðamenn að Liverpool sé tilbúið að greiða í kringum 25 milljónir punda. Einnig er talið að Chelsea geti hugsað sér að næla í kappann sem leikið hefur með Shakhtar í Meistaradeildinni undanfarin ár. Þar hefur hann skorað 4 mörk í 10 leikjum á tímabilinu. 

Leikmannahópur Shakhtar er nú í vetrarfríi og æfir á Flórída en talið er að forráðamenn félagsins ætli ekki að láta leikmanninn fara nema hátt tilboð berist. 

Ef af yrði þá myndu kaupin vera fyrstu stóru leikmannakaup Þjóðverjans Jürgens Klopp hjá Liverpool en hann hefur úr fáum sóknarmönnum að velja um þessar mundir vegna meiðsla í herbúðum félagsins. 

mbl.is