Frábært en ég gat ekki horft

Jürgen Klopp faðmar Roberto Firmino eftir sigurinn á Stoke í ...
Jürgen Klopp faðmar Roberto Firmino eftir sigurinn á Stoke í kvöld. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool settist á varamannabekkinn og fylgdist með úr fjarlægð þegar hans menn lögðu Stoke að velli í framlengdu vítaspyrnukeppninni í undanúrslitum deildabikarsins á Wembley í kvöld.

„Þetta var frábært þegar upp var staðið en vítaspyrnukeppnin var einum of mikið fyrir mig. Ég gat ekki horft á hana," sagði Þjóðverjinn sem var afar ánægður með stuðningsmenn Liverpool í kvöld.

„Þetta er besta stemningin sem ég hef upplifað síðan ég kom til félagsins. Leikurinn var góður gegn liði sem er mjög erfitt að spila gegn. Þeir breyttu um leikstíl í kvöld - markvörðurinn Jack Butland sá um að gefa boltann fram á Peter Crouch, og það var því erfitt að verjast þeim. Við lentum nokkrum sinnum í vandræðum en þeir fengu ekki of mörg færi.

Markið þeirra var tvöfalt rangstöðumark en þegar upp var staðið höfðum við heppnina með okkur í vítakeppninni. En á þessum 120 mínútum, verðskulduðu leikmenn, áhorfendur og Liverpool þessa útkomu.

Wembley er svalur staður til að spila fótbolta - en við förum þangað til að sigra. Það er ekkert gaman að tapa," sagði Klopp en Liverpool mætir annaðhvort Everton eða Manchester City í úrslitaleiknum á Wembley í London 28. febrúar.

mbl.is