Þetta er eins og ljótir menn og fallegar konur

Vincent Tan eigandi Cardiff City er litríkur karakter.
Vincent Tan eigandi Cardiff City er litríkur karakter. AFP

Vincent Tan, eigandi Cardiff sem leikur í ensku B-deildinni í knattspyrnu, vill að hans menn skjóti oftar á markið. Ef þeir skjóta oftar hljóta þeir að skora fleiri mörk.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson kom inn á af varamannabekknum á 77. mínútu þegar Cardiff gerði markalaust jafntefli við Charlton í dag. Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn með Charlton.

Tan heimsótti æfingasvæði Cardiff í vikunni og útskýrði hvað hann vill sjá á vellinum. „Ég vil sjá mitt lið taka 30-40 skot í hverjum leik. Ég sagði þeim að taka skot utan af velli,“ sagði Tan.

„Líkurnar á því að skora aukast við hvert skot. Ef þú tekur 30 skot áttu að skora þrjú mörk, ef þú tekur 40 skot áttu að skora fjögur mörk, os.frv.,“ bætti Tan við og útskýrði mál sitt með dæmi.

„Hefurðu séð ljótan mann við hliðina á fallegri konu? Það er vegna þess að hann spurði 30, 40, eða 50 sinnum áður en þeir fengu jákvætt svar.“

Ekki gekk þessi speki eftir í dag en Cardiff skaut 18 sinnum að marki í dag. Þrjú þeirra skota hittu markrammann en ekkert fór í markið, enda fór leikurinn 0:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert