Lærðum þetta af Midtjylland (myndskeið)

Juan Mata fagnar eftir að hafa skorað markið úr aukaspyrnu ...
Juan Mata fagnar eftir að hafa skorað markið úr aukaspyrnu í kvöld. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að liðið hafi skorað úr aukaspyrnu sinni gegn Shrewsbury í kvöld eftir að hafa séð Midtjylland taka aukaspyrnu með sams konar hætti.

Midtjylland er andstæðingur United í Evrópudeildinni og er danska liðið með 2:1-forskot fyrir seinni leik liðanna á fimmtudagskvöld. Í sigri United á Shrewsbury í kvöld skoraði Juan Mata mark beint úr aukaspyrnu sem líklega má deila um hvort var löglegt, því nokkrir samherja hans voru rangstæðir þegar spyrnan var tekin og gætu hafa truflað markvörð Shrewsbury.

„Við lærðum þetta eftir að hafa séð Midtjylland vera að gera þetta. Við héldum að þetta væri alltaf rangstæða og spurðum dómarana og þeir sögðu að svo væri ekki. Þess vegna lærðum við þetta um framkvæmd aukaspyrna. Í dag skoruðum við og það er gott,“ sagði Van Gaal.

mbl.is