Arsenal úr leik í enska bikarnum

Watford bar sigurorð af Arsenal í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla á Emirates í dag, en lokatölur í leiknum urðu 2:1 Watford í vil.

Arsenal var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en tókst ekki að nýta sér yfirburðina með því að komast yfir. Oliver Giroud, framherji Arsenal, kom reyndar boltanum í netið í upphafi leiksins en var flaggaður rangstæður og markið stóð því ekki. 

Odion Ighalo sem hefur verið funheitur í liði Watford í vetur kom svo Watford yfir í upphafi seini hálfleiks með 16. marki sínu í öllum keppnum í vetur. 

Adlene Guedioura tvöfaldaði svo forystu Watford með glæsilegu marki, en firnafast skot franska miðvallarleikmannsins af vítateigshorninu hafnaði í samskeytunum nær. 

Danny Welbeck sem kom inná sem varamaður hjá Arsenal minnkaði muninn undir lok leiksins eftir snotra hælsendingu frá Mesut Özil. 

Lengra komust leikmenn Arsenal ekki og bikarmeistarar síðustu tveggja ára eru þar af leiðandi úr leik, en Watford á enn möguleika á að verða bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. 

90. Leik lokið með 2:1 sigri Watford.

88. MARK. Arsenal - Watford 1:2. Danny Welbeck sem kom inn á sem varamaður hjá Arsenal fyrir tuttugu mínútu síðan minnkar muninn með marki eftir huggulega hælsendingu frá Mesut Özil. 

82. Skipting hjá Watford. Odion Ighalo fer af velli og Nordin Amrabat kemur inná. 

77. Skipting hjá Watford. Adlene Guedioura fer af velli og Almen Abdi kemur inná. 

74. Mesut Özil, leikmaður Arsenal, fær gult spjald fyrir brot. 

73. Skipting hjá Watford. Etienne Capoue fer af velli og Ikechi Anya kemur inná.  

68. Þreföld skipting hjá Arsenal. Joel Campbell, Oliver Giroud og Mohamed Elneny fara af velli og Danny Welbeck, Theo Walcott og Alex Iwobi koma inná. 

63. MARK. Arsenal - Watford 0:2. Adlene Guedioura tvöfaldar forystu Watford með glæsilegu marki. Bylmingsskot Guedioura af vítateigshorninu hafnar í samskeytunum nær. 

50. MARK. Arsenal - Watford 0:1. Hver annar en Odion Ighalo kemur Watford yfir. Ighalo fékk boltann í teignum eftir sendingu frá Troy Deeney, sneri á Gabriel Paulista og skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Þetta er 16. mark nígeríska framherjans í öllum keppnum í vetur.   

46. Seinni hálfleikur hafinn á Emirates.

45. Hálfleikur á Emirates. Staðan er markalaus, en heimamenn hafa verið sterkari aðilinn og gætu hæglega verið búnir að brjóta ísinn. 

44. Pantilimon, markvörður Watford, fær gult spjald fyrir að tefja leikinn. 

42. Joel Campbell, vængmaður Arsenal, bregst bogalistinn í dauðafæri em hann komst í eftir frábæra sendingu frá Mesut Özil. 

40. Elneny, leikmaður Arsenal, skýtur boltanum yfir í góðu færi. 

31. Gabriel Paulista, miðvörður Arsenal með groddaralega tæklingu á Troy Deeney en Andre Marriner dómari leiksins sér ekkert athugavert við tæklinguna. 

9. Oliver Giroud, framherji Arsenal, kemur boltanum í netið. Giroud er hins vegar flaggaður rangstæður og markið gildir því ekki.     

1. Leikurinn er hafinn á Emirates.

0. Arsenal bar sigurorð af Hull City í 16 liða úrslitum keppninnar á meðan Watford hafði betur gegn Leeds United. 

0. Arsenal er ríkjandi bikarmeistari, en liðið lagði Aston Villa að velli í úrslitaleiknum síðasta vor. Arsenal varð einnig bikarmeistari árið 2014, en liðið hafði þá betur gegn Hull City í bikarúrslitaleiknum. Arsenal 12 sinnum borið sigur úr býtum í ensku bikarkeppninni oftast allra liða. 

0. Watford hefur aldrei orðið enskur bikarmeistari, en liðið lék til úrslita undir stjórn Graham Taylor árið 1984. Watford laut þá í lægra haldi fyrir Everton í úrslitaleiknum. 

Byrjunarlið Arsenal: Ospina; Chambers, Mertesacker, Gabriel, Gibbs; Elneny, Coquelin; Campbell, Ozil, Sanchez; Giroud.

Byrjunarlið Watford: Pantilimon; Nyom, Prodl, Cathcart, Ake; Watson, Behrami; Capoue, Deeney, Guedioura; Ighalo.

mbl.is