Framkvæmdastjóri Liverpool hættir

Ian Ayre, framkvæmdastjóri Liverpool.
Ian Ayre, framkvæmdastjóri Liverpool. AFP

Ian Ayre, framkvæmdastjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, stígur niður eftir næsta tímabil, en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag.

Ayre, sem er 52 ára gamall, hóf störf hjá Liverpool árið 2007 en Tom Hicks og George Gillett, fyrrum eigendur félagsins, réðu hann til starfa. Hann var maðurinn sem gekk frá samningum við Standard Chartered bankann um að verða helsti stuðningsaðili félagsins.

Fenway Sports Group keypti Liverpool árið 2010 og fékk Ayre stöðuhækkun í kjölfarið. Daniel Comolli var síðan látinn stíga niður sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu og var ákveðið að Ayre myndi sinna hans störfum og vera framkvæmdastjóri félagsins samhliða því.

Hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir störf sín á leikmannamarkaðnum en félagið hefur misst af mörgum stórum bitum vegna hans. Hann mun nú stíga niður sem framkvæmdastjóri félagsins eftir næsta tímabil eða 17. maí 2017.

Ekki er ljóst hver tekur við af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert