Rashford tryggði United sætan sigur

Rashford fagnar markinu sem hann skoraði.
Rashford fagnar markinu sem hann skoraði. AFP

Manchester United sigraði granna sína í Manchester City, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. United er með 50 stig í 6. sæti en City er í 4. sæti með 51 stig.

Gestirnir komumst yfir á 16. mínútu. Rashford fékk sendingu frá Mata, sólaði Demichelis upp úr skónum og skoraði af öryggi framhjá Joe Hart í marki City.

Eftir markið reyndu heimamenn að sækja en tilraunir þeirra voru heldur máttlausar og de Gea hafði það náðugt í marki United. Staðan að loknum fyrir hálfleik 1:0 fyrir United.

Heimamenn sóttu nánast allan síðari hálfleikinn, án þess þó að skapa sér mikið af opnum marktækifærum. Sergio Agüero komst líklega næst því að skora í liði heimamann en skallabolti hans um miðjan síðari hálfleikinn small í stönginni á marki United.

Gestirnir héldu út og fögnuðu sætum sigri og eru einungis einu stigi á eftir grönnum sínum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu:

90. Leiknum er lokið! United vinnur sætan sigur á grönnum sínum!

90. Agüero í mjög góðu færi í vítateignum en setur boltann fram hjá markinu!

90. Sex mínútur í uppbótartíma!

84. Skipting hjá United. Darmian fer af leikvelli og Fosu-Mensah kemur inn á í hans stað.

76. Gult spjald á Mangala. Hann fer full harkalega í Lingard og fer í svörtu bókina.

71. Heimamenn nálægt því að jafna! Agüero með skalla fyrir markið en og Bony var þar nálægt því að koma boltanum í markið. Smalling náði hins vegar að henda sér fyrir knöttinn.

69. Skipting hjá United. Mata kemur af leikvelli og Schweinsteiger kemur inn á í hans stað.

66. Jahérna! Agüero með lúmskan skalla í stöngina!

62. Skipting hjá United. Rojo fer af velli og Valencia kemur inn á í hans stað.

60. Sókn heimamanna er að þyngjast en de Gea er samt held ég ekki enn byrjaður að svitna.

55. Martial með lúmskt skot en Caballero ver vel.

53. Skipting hjá City. Demichelis tekinn af leikvelli og Bony kemur inn á í hans stað. Nú ætlar City að sækja af krafti.

50. Joe Hart er meiddur á kálfa og kemur ekki meira við sögu. Hann er borinn af leikvelli, vonandi er þetta ekki alvarlegt. Caballero, hetjan úr úrslitaleiknum í deildabikarnum, kemur inn á í stað Hart.

46. Síðari hálfleikur er hafinn!

45. Fyrri hálfleik er lokið og staðan er 1:0 fyrir gestina í United.

45. Víti?? Rashford reynir að fara framhjá Demichelis sem virðist brjóta á honum. Ekkert er dæmt en mér sýndist þetta vera brot. Heimamenn heppnir!

41. City er meira með boltann en gestirnir verjast aftarlega. Heimamenn hafa ekki enn náð að skapa sér dauðafæri og áðurnefndur de Gea hefur það frekar huggulegt í markinu.

33. Touré með frekar lúmskt skot fyrir utan vítateig en boltinn fram hjá markinu. Líklega var David de Gea með allt á hreinu í markinu þarna.

25. Skipting hjá City. Sterling haltrar meiddur af velli og Fernando kemur inn á í hans stað.

24. Fyrri hálfleikur rétt rúmlega hálfnaður. Gestirnir hafa náð góðum tökum á leiknum eftir markið.

16. MARK!! United er komið yfir, staðan er 1:0. Rashford fær boltann frá Mata og labbar framhjá Demichelis en hann sparkar út í loftið, mjög undarlegur varnarleikur. Rashford setur boltann örugglega framhjá Joe Hart og skorar fyrsta mark leiksins!

14. Stórsókn City. Eins og áður endar hún með því að Navas fær boltann en de Gea ver frá honum. City-menn vilja örugglega að einhver annar en Navas taki skotin.

10. Smalling fær fyrsta gula spjald leiksins. Hann gerði sitt besta til að hanga í Agüero og það má ekki; gult spjald.

7. Fyrsta færi leiksins. Navas fær boltann í teignum en setur boltann framhjá með vinstri fæti.

1. Leikurinn er hafinn!

Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Manchester City: Hart, Sagna, Demichelis, Mangala, Clichy, Fernandinho, Toure (C), Navas, Sterling, Silva, Aguero.
Varamenn: Caballero, Zabaleta, Kolarov, Fernando, M. Garcia, Bony, Iheanacho. 

Manchester United: De Gea, Darmian, Smalling, Blind, Rojo, Schneiderlin, Carrick, Lingard, Mata, Martial, Rashford.
Varamenn: Romero, Fosu-Mensah, Valencia, Fellaini, Schweinsteiger, Januzaj, Memphis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert