Var Klopp of harður við Benteke í gær?

Klopp var ekki ánægður með frammistöðu Benteke í gær.
Klopp var ekki ánægður með frammistöðu Benteke í gær. AFP

Eftir leik Southampton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu gekk Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, inn á völlinn og spjallaði við Christian Benteke.

Sá síðarnefndi hafið komið inn á sem varamaður 20 mínútum fyrir leikslok. Nokkrum mínútum eftir að Benteke kom inn á skaut hann framhjá marki Southampton úr góðu færi en staðan var þá 2:1 fyrir Liverpool. Heimamenn í Southampton skoruðu tvö mörk á síðustu mínútum leiksins og tryggðu sér sætan sigur.

„Ég fór ekki til hans og spurði: „Hvers vegna skoraðir þú ekki úr færinu?“ Stundum þarf ég að tala við leikmenn mína, það er hluti af starfinu,“ sagði Klopp.

„Núna fara flestir leikmenn í landsliðsverkefni og ég vildi ekki hringja í þá. Þess vegna kom ég inn á og sagði nokkur orð við þá, sem er eðlilegt,“ bætti Klopp við.

Fyrrverandi leikmennirnir Alan Shearer og Danny Murphy gagnrýndu Klopp fyrir að skamma leikmann inni á vellinum. „Það er ekkert vandamál að segja leikmanni ef hann hefur staðið sig illa. Ekki gera það samt fyrir framan alla stuðningsmenn, gerðu það frekar inni í klefanum,“ sagði Shearer og Murphy tók undir með honum:

„Ég er hjartanlega sammála þessu. Ef þú ætlar að láta einhvern heyra það, farðu þá inn í klefann fyrst.“

mbl.is