Mögnuð endurkoma Englendinga (myndskeið)

Harry Kane í baráttu við varnarmenn Þjóðverja í kvöld.
Harry Kane í baráttu við varnarmenn Þjóðverja í kvöld. AFP

Englendingar áttu magnaða endurkomu þegar þeir lögðu Þjóðverja, 3:2, í frábærum vináttuleik í knattspyrnu sem fram fór í Berlín í kvöld.

Þjóðverjar komust í 2:0. Toni Kroos skoraði fyrsta markið á 43. mínútu og Mario Gomez bætti við öðru á 57. mínútu.

En Englendingar voru svo sannarlega ekki af baki dottnir. Harry Kane minnkaði muninn á 61. mínútu og Jamie Vardy jafnaði metin þegar hann skoraði með glæsilegri hælspyrnu á 74. mínútu eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði en þremur mínútum áður hafði hann komið inná sem varamaður.

Það var svo Eric Dier sem tryggði Englendingum sigurinn þegar hann skallaði boltann af afli í netið á fyrstu mínútu í uppbótartíma.

mbl.is