Missir United Martial í sumar?

Anthony Martial.
Anthony Martial. AFP

Fjölmiðlar í Frakklandi greina frá því að franska meistaraliðið París SG sé að undirbúa kauptilboð í franska táninginn Anthony Martial.

Martial, sem er 19 ára gamall, hefur slegið í gegn á sinni fyrstu leiktíð með Manchester United og Parísarliðið er með hann í sigtinu til að fylla skarð Svíans Zlatan Ibrahimovic sem hefur ákveðið að yfirgefa félagið í sumar þegar samningur hans rennur út.

Þá herma fregnir frá Ítalíu að meistararnir í Juventus hafi mikinn áhuga á fá franska sóknarmanninn til liðs við en víst er að Manchester United vill alls ekki missa Martial og ætlar honum stóra hluti á Old Trafford næstu árin.

United fékk Martial til liðs við fyrir tímabilið og greiddi Monaco 36 milljónir punda fyrir leikmanninn sem hefur skorað 12 mörk í öllum keppnum á tímabilinu. Hann er samningsbundinn Manchester United til ársins 2019.

mbl.is