Wenger vill styrkja miðsvæðið

Granit Xhaka er hér til hægri á myndinni í leik ...
Granit Xhaka er hér til hægri á myndinni í leik með Borussia Mönchengladbach. AFP

Þó svo að stöðugt berist fregnir af stuðningsmönnum Arsenal sem vilja losna við Arsene Wenger úr starfi sem knattspyrnustjóri félagsins er franski knattspyrnustjórinn byrjaður að undirbúa sumarinnkaup sín.

Samkvæmt heimildum Skysports rennir Wenger hýru auga til svissneska landsliðsmannsins Granit Xhaka sem leikur með Borussia Mönchengladbach.

Skysports heldur því fram að faðir Xhaka hafi hitt Arsene Wenger og rætt vistaskipti sonarins, en talið er að kaupverðið sé í kringum 35 milljónir punda. 

Xhaka er samningsbundinn Borussia Mönchengladbach til ársins 2019, en hann gekk til liðs við þýska liðið frá svissneska liðinu Basel fyrir fjórum árum síðan.

mbl.is