„Mourinho hafði enga trú á mér“

Jon Obi Mikel í leik með Chelsea.
Jon Obi Mikel í leik með Chelsea. AFP

Jon Obi Mikel, miðvallarleikmaður Chelsea á Englandi, lætur Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóra liðsins, heldur betur heyra það í viðtali við vefmiðilinn Goal.com í dag.

Nígeríski leikmaðurinn lék lítið undir stjórn Mourinho á þessu tímabili en hann spilaði aðeins fimm deildarleiki áður en portúgalski stjórinn var látinn taka poka sinn.

Hann hefur verið lykilmaður eftir að Guus Hiddink tók við liðinu en Mikel er afar óánægður með Mourinho, sem treysti honum einfaldlega ekki.

„Sjálfstraust skiptir öllu máli í þessu. Ef að þjálfarinn þinn hefur ekki trú á þér, þá get ég fullvissað ykkur um að maður getur ekki náð árangri,“ sagði Mikel.

„Þó svo maður gerði hlutina rétt þá reyndi hann alltaf að finna eitthvað til að setja út á. Hann hafði ekki sömu trú á mér og hann hafði áður, sem er allt í lagi því stjórar eru alltaf með einhvern leikmann sem þeir treysta,“ sagði Mikel að lokum.

mbl.is