Leeds með tilboð í Hauk

Haukur Heiðar Hauksson á EM.
Haukur Heiðar Hauksson á EM. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Enska knattspyrnufélagið Leeds United hefur gert sænska úrvalsdeildarfélaginu AIK tilboð í íslenska landsliðsbakvörðinn Hauk Heiðar Hauksson, samkvæmt heimildum mbl.is.

Haukur, sem er 24 ára gamall, leikur nú sitt annað tímabil með AIK í Stokkhólmi. Hann er uppalinn KA-maður og lék með liðinu til 2011 en síðan með KR-ingum í þrjú ár.

Hann var í íslenska landsliðshópnum sem var á EM í Frakklandi og hefur leikið sjö A-landsleiki fyrir Íslands hönd, ásamt því að spila áður með U21 og U19 ára landsliðunum.

Garry Monk er nýráðinn knattspyrnustjóri Leeds en hann var áður stjóri Swansea og Gylfi Þór Sigurðsson lék þar undir hans stjórn.

Leeds leikur í ensku B-deildinni og endaði þar í fjórtánda sæti á síðasta keppnistímabili. Félagið var um árabil í fremstu röð og varð enskur meistari 1969, 1974 og 1992, bikarmeistari 1972, og vann UEFA-bikarinn 1968 og 1971.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert