Katrín kveður Doncaster

Katrín Ómarsdóttir í búningi Doncaster.
Katrín Ómarsdóttir í búningi Doncaster.

Enska knattspyrnufélagið Doncaster Belles staðfesti í dag að íslenska landsliðskonan Katrín Ómarsdóttir væri á förum þaðan eftir eins árs dvöl. Frá því er greint á vef félagsins.

Katrín kom til Doncaster frá Liverpool, þar sem hún lék í þrjú ár og varð tvisvar enskur meistari. Doncaster var nýliði í WSL-1 atvinnudeildinni en átti erfitt uppdráttar og tapaði fimmtán af sextán leikjum sínum. Katrín skoraði einmitt sigurmarkið í eina sigurleiknum í lokaumferðinni, gegn Reading.

„Katrín er leikmaður sem býr til eitthvað úr engu, átti mjög sérstök tilþrif inn á milli, og sigurmarkið hennar í lokaleiknum var okkur ákaflega mikilvægt. Það hefur verið afar gaman að vinna með henni og það er hægt að tala við hana klukkutímum saman um fótboltann og hennar reynslu. Það var frábær endir fyrir hana á dvöl henni hjá okkur að skora þetta sigurmark. Það er leitt að sjá hana fara og ég er viss um að við verðum áfram í sambandi við hana, en ég vil þakka henni allt það sem hún lagði á sig fyrir félagið,"  segir Emma Coates, þjálfari Doncaster, á vef félagsins.

„Allir hjá félaginu hafa reynst mér ákaflega vel og ég er mjög ánægð með að hafa verið í röðum Donny Belles, enda þótt tímabilið hafi verið afar erfitt. Ég veit að félagið mun koma sterkara til baka. Ég vil þakka öllum hjá félaginu fyrir framlagið á þessu tímabili og stelpunum fyrir að taka svona vel á móti mér. Ég fylgjast með Doncaster í framtíðinni og mun ávallt óska þeim góðs gengis," segir Katrín á vef Doncaster.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert