Þjálfari áreitti landsliðsmann: „Hann var skrímsli“

Paul Stewart í leik með enska landsliðinu.
Paul Stewart í leik með enska landsliðinu.

Enski miðillinn Mirror birtir í dag afar óhugnarlega frásögn knattspyrnumannsins fyrrverandi, Paul Stewart, sem gerði garðinn frægan með liðum á borð við Liverpool og Tottenham og á árum áður.

„Hann lét mig og annan strák í liðinu framkvæma kynferðislegar athafnir með honum.“ Svona lýsir Stewart því þegar hann var kynferðislega áreittur af þjálfara sínum þegar hann var á aldrinum 11-15 ára.

Leyndarmálið geymdi hinn 52 ára gamli Stewart í 40 ár, en umræddur níðingur hótaði að drepa fjölskylduna hans ef hann segði frá því sem gengi á. Verknaðurinn hófst einmitt eftir að umræddur þjálfari vingaðist við foreldra Stewart og sagðist ætla að hjálpa til að gera hann að stjörnu.

Sagðist ætla að drepa fjölskylduna

„Hann byrjaði einn daginn að snerta mig þegar við vorum á ferð í bíl. Ég fraus og var dauðhræddur, vissi ekkert hvað ég átti aðgera. Ég reyndi að segja foreldrum mínum að hleypa honum ekki inn á heimilið, en ég var bara ellefu ára,“ segir Stewart við Mirror.

„Frá þeim tímapunkti fór hann að misnota mig kynferðislega. Hann sagðist ætla að drepa pabba minn, mömmu mína og tvo bræður ef ég segði orð um það. Þegar þú ert ellefu ára gamall, þá trúirðu því,“ segir Stewart.

Þjálfarinn beitti ýmsum brögðum í samskiptum við foreldra Stewart. Svo sem að hann þyrfti að fara á aukaæfingar til þess að bæta ýmsa þætti í leik sínum. Það var afsökun til þess að vera einn með honum. Aðrir leikmenn neituðu að ferðast í bíl með þjálfaranum á leið í leiki. Ef fleiri voru með, var Stewart hins vegar ávallt síðastur til þess að vera skutlað heim.

Paul Stewart.
Paul Stewart. Ljósmynd/ Skjáskot frá Mirror

„Hann var skrímsli“

Þjálfarinn, sem ekki er nefndur, vann sér traust foreldra Steward sem treystu honum fyrir því að fara með son sinn á fótboltamót víða um landið.

„Ég gat aldrei sagt liðsfélögum mínum frá þessu. Ég var alltaf í hættu á því að ef ég myndi ekki spila vel myndi hann hóta mér ofbeldi ásamt kynferðislegum athöfnum. Hann var skrímsli,“ segir Stewart. „Ég fór samt út á völlinn og spilaði. Þessar 90 mínútur voru mín frelsun.“

Stewart ákvað að koma fram núna eftir að hafa lesið um annan enskan knattspyrnumann, Andy Woodward, sem var misnotaður af þjálfara sínum á sjöunda og áttunda áratugnum og sagði sögu sína nýlega. Stewart hræðist það að enn fleiri knattspyrnumenn hafi þurft að bera álíka reynslu með sér í gegnum árin.

Hugsaði um að hefna sín

Stewart spilaði á sínum tíma með stjörnum á borð við Paul Gascoigne, Gary Lineker og Ian Rush. Þá vann hann FA-bikarinn með Tottenham árið 1991.

„Farsældin var mín leið til þess að gleyma. Ég hugsaði um að hefna mín, en það snýst ekki um það. Það þarf að koma skilaboðum út um hvað getur verið í gangi á bak við tjöldin. Það eru barnaníðingar þarna úti sem koma börnum í íþróttir og lofa að gera þau að stjörnum. Eins og hann gerði við mig,“ segir Stewart.

Hann lagði skóna á hilluna árið 2000, en lengst af spilaði hann með Tottenham og Liverpool. Þá var hann einnig á mála hjá liðum á borð við Manchester City og Sunderland. Þá spilaði Stewart þrjá leiki fyrir enska landsliðið á árunum 1991-1992.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert