Lögregla í 15 héruðum rannsakar misnotkunina

Barry Bennell hefur þegar hlotið níu ára fangelsisdóm. Hann var …
Barry Bennell hefur þegar hlotið níu ára fangelsisdóm. Hann var í dag ákærður enn á ný fyrir barnaníð, en lögregluyfirvöld í fimm héruðum á Englandi eru nú með mál hans til skoðunar.

Tæplega 900 manns hafa hringt í neyðarlínu barnaverndarsamtakanna NSPCC vegna kynferðislegrar misnotkunar í yngri deildum enska fótboltans. Ekki er nema vika frá því að símanúmerið var opnað, en þeim fyrrverandi leikmönnum enska boltans sem greint hafa opinberlega frá misnotkun sem þeir sættu af hálfu fótboltaþjálfara í æsku fjölgar nú stöðugt.

Fimmtán lögreglusveitir víðs vegar um Bretland rannsaka nú misnotkunina sem hefur ratað á síður dagblaða undanfarnar tvær vikur.

Neyðarlína, sem er rekin með stuðningi frá enska knattspyrnusambandinu og Wayne Rooney, góðgerðarsendiherra NSPCC og fyrirliða enska landliðsins, fékk 50 hringingar fyrstu tvo tímana eftir að hún var opnuð og í yfirlýsingu frá NSPCC segir að starfsfólk hafi vísað 60 málum til lögreglu og félagsmálayfirvalda fyrstu þrjá dagana. Er það rúmlega þrefaldur sá fjöldi mála sem var vísað áfram eftir að neyðarlína var sett á laggirnar til að aðstoða fórnarlömb fjölmiðlamannsins Jimmy Savile.

Bennell til skoðunar hjá lögreglu í 5 héruðum

Umfang misnotkuninnar tók að skýrast eftir að knattspyrnumennirnir fyrrverandi, þeir Andy Woodward, Steve Walters og Paul Stewart, greindu frá því að þeir hefðu sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu þjálfara sinna í æsku.

„Það er hræðilegt að heyra að sumir kollega minna hafi þjáðst á þennan hátt á meðan þeir stunduðu íþrótt sem við elskum,“ sagði Rooney. „Það er mikilvægt að fólk átti sig á að það er í lagi að segja frá og að það stendur hjálp til boða. Það þarf enginn að þjást í þögn.“

Barry Bennell, sem þjálfaði yngri deildir hjá Crewe Alexandra, Manchester City og Stoke City um þriggja áratuga skeið, hefur verið ásakaður af a.m.k. 20 knattspyrnumönnum um að hafa misnotað þá kynferðislega, en Bennell hefur þegar hlotið dóma fyrir barnaníð. Lögregla í fimm héruðum er nú með mál Bennells til skoðunar og í dag var hann ákærður fyrir barnaníð í átta liðum.

Man enn svipinn á andlitið Ormonds

David Eatock, fyrrverandi leikmaður Newcastle er sá sem síðast hefur tjáð sig um misnotkun sem hann sætti af hálfu George Ormond, sem þjálfaði unglingalið Newcastle. Ormond var dæmdur til sex ára fangelsisvistar árið 2002 fyrir barnaníð.

„Eitt af því sem mér fannst erfitt við að koma fram er að ég var ekki jafnungur og sumir hinna,“ sagði Eatock  í viðtali við Guardian. „Ég var 18 ára þegar ég kynntist George Ormond og ég man enn svipinn á andliti hans, hversu ógnvekjandi hann var og hvernig hann virkaði andsetinn til augnanna.

„Ég er feginn að Andy Woodward reið á vaðið og veitti mér hugrekki til að gera þetta því ég hefði ekki gert það annars.“

Daily Telegraph hefur þá greint frá því að úrvarsdeildarliðið Chelsea hafi greitt Eddie Heath, sem nú er látinn, fyrir að greina ekki frá því að hann hefði sætt misnotkun af hálfu manns sem leitaði að efnilegum leikmönnum á vegum liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert