Brotamaður enn í fótboltanum

Southampton vinnur með lögregluyfirvöldum eins og fjölmörg ensk knattspyrnufélög þessa …
Southampton vinnur með lögregluyfirvöldum eins og fjölmörg ensk knattspyrnufélög þessa dagana.

Fyrrverandi starfsmaður enska knattspyrnufélagsins Southampton sem sakaður var um kynferðislegt ofbeldi gagnvart ungum drengjum er enn við störf í kringum fótboltann á Englandi.

Þetta kom fram í útvarpsþætti BBC Radio 4 í dag þar sem sagt var að viðkomandi starfsmaður, sem hefði verið hjá Southampton á níunda áratug síðustu aldar, hefði verið látinn fara frá félaginu þar sem hátterni hans gagnvart drengjum í yngri flokkum félagsins hefði ekki þótt viðeigandi.

Fullyrt var í þættinum að starfsmaðurinn hefði farið til starfa hjá fleiri félögum, eitt þeirra hefði sagt honum upp störfum, en hann væri enn í vinnu tengdri fótboltanum.

Southampton hefur lýst því yfir að félagið vinni náið með lögreglunni í Hampshire til að upplýsa þau mál sem kunni að tengjast því. Eftir að fréttir af kynferðislegu ofbeldi gagnvart drengjum í enskum knattspyrnufélögum á undanförnum áratugum komust í hámæli og nokkrir stigu fram og sögðu frá sinni reynslu hefur verið tilkynnt um hundruð tilfella víðs vegar um England.

Tíu brotamenn hafa verið nafngreindir og lögregluyfirvöld segja að margar tilkynningar streymi inn á hverjum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert