Þetta var óviðeigandi framkoma

Southampton vinnur með lögregluyfirvöldum eins og fjölmörg ensk knattspyrnufélög þessa …
Southampton vinnur með lögregluyfirvöldum eins og fjölmörg ensk knattspyrnufélög þessa dagana.

Matthew Le Tissier, einn þekktasti knattspyrnumaðurinn í sögu Southampton og fyrrverandi landsliðsmaður Englands, segir að hann hafi upplifað afar óviðeigandi framkomu af hálfu Bob Higgins, fyrrverandi yfirmanns unglingamála hjá félaginu, sem hefur verið ásakaður um að hafa beitt unga leikmenn Southampton kynferðislegu ofbeldi á níunda áratug síðustu aldar.

Le Tissier, sem er frá Ermarsundseyjunni Guernsey, var í röðum Southampton frá 17 ára aldri og lék allan sinn meistaraflokksferil með félaginu, frá 1986 til 2002.

Hann sagði við BBC að Higgins hefði nuddað sig og fleiri leikmenn unglingaliðsins, og þeir hefðu verið naktir.

„Allir voru naktir og var hent á þennan bedda þar sem þeir fengu mjög snöggt nudd. Þetta var óþægilegt og alveg virkilega rangt, þegar maður horfir til baka. Þetta sér maður í dag en þegar maður var ungur strákur hugsaði maður bara: Er þetta eðlilegt? Þetta var frekar ógeðfellt og alls ekki eðlilegt. Svo heyrði maður sögur af strákum nöktum í einhverju sápunuddi, keppni um hver væri með mest hár á rassinum, og í dag hugsar maður  til baka og segir með sjálfum sér: Bíddu við, hvað var í gangi?“ sagði Le Tissier við BBC.

„Strákar eru harðir af sér á þessum aldri, þeir fíflast með þessa hluti og þetta verður allt að hálfgerðum brandara. En svo fullorðnast maður og hugsar um þetta og áttar sig á því að þetta var engan veginn rétt. Ég er viss um að hugrekki þeirra sem nú hafa stigið fram og sagt frá muni hvetja alla sem upplifðu þessa hluti,“ sagði Le Tissier.

Hann sendi síðan frá sér skilaboð á Twitter: „Það er rétt að taka fram að ég upplifði aldrei að ég hefði  verið misnotaður og geri ekki enn. Ekki vorkenna mér - það er allt í besta lagi með mig. En svona var þetta.“

Higgins var sýknaður af ásökunum um kynferðislegt ofbeldi árið 1992 og hefur ávallt neitað að hafa gert eitthvað rangt. Hann er enn að störfum sem þjálfari hjá utandeildaliðinu Fleet Town.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert