Er ekki að reyna að fara né vil það

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

„Ég er ekki að reyna að fara frá Swansea né vil það,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við BBC en hann var í kvöld útnefndur leikmaður ársins af leikmönnum og stuðningsmönnum hjá Swansea annað árið í röð.

Miklar vangaveltur hafa verið um Gylfa en hann hefur á undanförnum vikum og dögum verið orðaður við önnur lið í ensku úrvalsdeildinni og ekki síst Everton en Gylfi hefur átt frábært tímabil með velska liðinu.

„Ég skrifaði undir nýjan samning síðastliðið sumar. Ég á þrjú ár eftir af honum svo það er undir félaginu komið hvort það vill selja mig. Ég er mjög ánægður hjá Swansea,“ segir Gylfi, sem hefur skorað 9 mörk og lagt upp 13 í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

„Ég er ekkert að hugsa um að fara eitthvað. Það er ekki eins og það sé eitthvað sem ég vil. Ég er bara mjög rólegur yfir þessu og er ekkert að spá hvað fólk er að skrifa,“ segir Gylfi Þór.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert