Kostar Ronaldo 130 eða 350 milljónir?

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Fréttir af Cristiano Ronaldo og yfirvofandi brotthvarfi hans frá Real Madrid eru á ýmsa vegu í spænskum og enskum fjölmiðlum í dag.

Sunday Express fullyrðir að Roman Abramovich, eigandi Englandsmeistara Chelsea, sé reiðubúinn til að greiða metfé til að fá Ronaldo í raðir félagsins í sumar.

Spænska blaðið Marca segir að Florentino Perez forseti Real Madrid hafi þegar sagt Ronaldo að félagið muni ekki standa í vegi hans, vilji hann yfirgefa Evrópumeistarana.

Hinsvegar fullyrðir Mail on Sunday að Real Madrid hafi sett 350 milljón punda verðmiða á Ronaldo til að fæla frá Manchester United og París SG sem eru sögð áhugaverðust um að fá hann í sínar raðir.

Sunday Mirror segir að Ronaldo muni aðeins halda kyrru fyrir hjá Real Madrid ef  félagið borgi þær 13 milljónir punda sem hann er sagður skulda spænskum skattayfirvöldum.

Sunday Telegraph segir að samkvæmt ráðgjöfum Ronaldo muni Real Madrid sætta sig við 130 milljónir punda fyrir hann, enda vilji leikmaðurinn breyta til og fá nýja áskorun.

El Pais á Spáni segir að umboðsmaður Ronaldo, Jorge Mendes, sé að skoða mögulega kosti í stöðunni hjá Portúgalanum en Real Madrid hafi enn ekki fengið tilboð í hann og vonist eftir því að Ronaldo skipti um skoðun áður en langt um líður.

Sjálfur er Ronaldo í Kazan í Rússlandi þar sem Portúgal mætir Mexíkó í Álfukeppni FIFA í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert