Tilboði frá City í Reina var hafnað

Pepe Reina.
Pepe Reina. AFP

Ítalska knattspyrnuliðið Napoli hefur hafnað tilboði frá Manchester City í spænska markvörðinn Pepe Reina.

Að því er vefur Mirror greini frá bauð Manchester City 2 milljónir punda í Reina en Napoli er ekki tilbúið að láta hann af hendi fyrir minna en 4,5 milljónir punda.

Manchester City keypti markvörðinn Edersen Moares frá portúgalska liðinu Benfica fyrr í sumar fyrir 35 milljónir punda en hann á verja City á komandi leiktíð. Claudio Bravo er á leið frá Manchester City en hann stóð engan veginn undir væntingum þegar liðið fékk hann frá Barcelona fyrir síðasta tímabil. Hann missti sæti sitt til Willy Caballero sem nýlega gekk í raðir Englandsmeistara Chelsea.

mbl.is