Jöfnunarmarkið átti ekki að standa

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

„Við vorum góðir á köflum, en duttum niður þess á milli og vorum síðan óheppnir að ná ekki að landa sigrinum. Jöfnunarmarkið var klárlega rangstaða og hefði því ekki átt að standa,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í samtali við BBC, eftir 3:3-jafntefli liðsins gegn Watford í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. 

„Þeir komust yfir mark góðu marki úr föstu leikatriði sem var erfitt að verjast. Við vorum ekki nógu beinskeyttir í okkar aðgerðum í fyrri hálfleik. Við komum af meiri krafti inn í seinni hálfleikinn og vorum mun hættulegri í sóknaraðgerðum,“ sagði Klopp um þróun leiksins. 

„Við féllum hins vegar of langt til baka og náðum ekki að loka leiknum eftir að við komumst yfir. Við hefðum átt að halda áfram að sækja og þrýsta þeim aftar á völlinn. Þetta gerist oft ósjálfrátt. Við sváfum síðan aftur á verðinum eftir hornspyrnu, en seinna markið var ólöglegt sem er svekkjandi,“ sagði Klopp enn fremur um gang leiksins.

mbl.is