Það sem stuðningsmennirnir vilja sjá

Marcus Rashford, Romelu Lukaku, Paul Pogba og Nemanja Matic fagna …
Marcus Rashford, Romelu Lukaku, Paul Pogba og Nemanja Matic fagna öðru marka Lukaku í dag. AFP

Romelu Lukaku og Nemanja Matic voru glaðir í bragði eftir frumraun sína með Manchester United, en báðir stóðu sig vel í 4:0-sigrinum á West Ham í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

„Það að spila fyrir framan svona áhorfendur er algjör draumur, en það mikilvægasta var að fá þrjú stig,“ sagði Lukaku, sem skoraði tvö mörk fyrir United í dag.

„Þegar maður spilar fyrir Manchester United hefur maður sitt hlutverk, og hjá mér er það að skora mörk. Þetta byrjar vel. Stjórinn vill að ég leiði liðið og skapi eins mikið og ég get. Við leggjum hart að okkur á æfingum og það er að skila sér,“ sagði Lukaku.

„Stuðningsmennirnir vilja sjá flottan fótbolta og við verðum að hafa það í huga. Þeir verða ánægðir í dag. Þetta er bara byrjunin og við verðum að halda áfram að vinna eftir því sem stjórinn leggur fyrir okkur,“ bætti Belginn við.

„Það var afar mikilvægt fyrir okkur að byrja vel með þremur stigum. Andstæðingarnir voru mjög þéttir fyrir en eftir fyrsta markið myndaðist meira rými. Ég er mjög ánægður með liðið og við verðum með meira sjálfstraust í næsta leik,“ sagði Matic, sem lék með Paul Pogba á miðjunni hjá United.

„Stjórinn sagði mér að ég yrði bara að gera mitt og Paul sitt. Ég er mjög ánægður með það hvernig allir gerðu sitt besta gegn sterku liði. Við verðum að halda svona áfram,“ sagði Matic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert