Gylfi ánægður að veita íslenskum félögum milljónir

Gylfi Þór Sigurðsson skrifar undir í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson skrifar undir í gær. Ljósmynd/Everton

Gylfi Þór Sigurðsson, sem í gær gekk í raðir Everton frá Swansea, segist ánægður með að íslensk félög muni einnig fá pening í kassann eftir vistaskipti hans.

Félögin sem hann lék með í yngri flokkum hér á Íslandi, Breiðablik og FH, hafa hagnast vel á vistaskiptum Gylfa. Í hvert skipti sem Gylfi hefur verið seldur hafa þau fengið sérstakar samstöðubætur, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Við þær upphæðir bætast svokallaðar uppeldisbætur, við félagaskipti Gylfa á árunum áður en hann varð 24 ára, en ekki fékkst uppgefið hjá félögunum í gær hve háar þær bætur hefðu verið á sínum tíma. Það er engu að síður ljóst að Gylfi tryggir nú Breiðabliki 57 milljónir króna, og FH 34 milljónir.

„Ég er mjög ánægður með það. Það er auðvitað frábært að þessi tvö íslensku félög fái hluta af þessari miklu upphæð. Hvort sem þetta fer í unglingastarfið eða meistaraflokkana er bara jákvætt að það komi smá peningur inn í íslenskan fótbolta,“ sagði Gylfi.

Samstöðubætur vegna Gylfa.
Samstöðubætur vegna Gylfa. mbl.is

Ítarlega er rætt við Gylfa í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.