Gylfi hrósaði Rooney í hástert

Gylfi Þór Sigurðsson mun spila með Wayne Rooney.
Gylfi Þór Sigurðsson mun spila með Wayne Rooney. Ljósmynd/Everton

Gylfi Þór Sigurðsson sat fyrir svörum á fréttamannafundi hjá Everton í dag, tveimur dögum eftir að hafa skrifað undir fimm ára samning við félagið.

„Þetta er stórt félag með mikla sögu. Ég hlakka til að þurfa ekki að spila lengur á móti þeim og er mjög ánægður að vera hér. Þetta er félag á uppleið og ég vil vera hluti af því,“ sagði Gylfi á fundinum. Everton mætir Manchester City á mánudag, en það á eftir að koma í ljós hvort Gylfi spili leikinn.

„Ég er kannski ekki tilbúinn að spila 90 mínútur, ef til vill aðeins 45 mínútur, en ég hef æft mjög vel. Ég þarf bara að spila,“ sagði Gylfi sem einnig hrósaði Wayne Rooney.

„Ég held að hann fái ekki það lof sem hann á skilið. Hann er leikmaður sem ég hlakka mikið til að spila með,“ sagði Gylfi.

mbl.is