Mourinho segir United ekki neitt draumalið

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segist afar ánægður með það lið sem hann hefur í höndunum og hrósaði forsvarsmönnum félagsins á fréttamannafundi í dag.

„Ég var með fjóra leikmenn á óskalistanum og fékk þrjá fyrir fyrsta leik. Félagið vann frábærlega og aðrir leikmenn eru ekki í vafa með framtíð sína,“ sagði Mourinho.

United byrjaði tímabilið með 4:0-sigri á West Ham en Mourinho fer engu að síður ekki fram úr sér.

„Ég er of reynslumikill til þess að missa einbeitinguna og halda að 4:0-sigur geri okkur að einhverju draumaliði. Við erum það ekki. En við erum vissulega með meira sjálfstraust en á síðasta tímabili, höfum verið lengur saman og erum með meiri yfirvegun,“ sagði Mourinho sem sjálfur var afar yfirvegaður.

„Ég er rólegur. Þegar ég horfi á síðasta leik þá er margt sem ég er ánægður með. Það er áskorun að ná slíkri frammistöðu aftur. Góð taktík, fengum ekki á okkur mark og spiluðum góðan fótbolta,“ sagði Mourinho.

mbl.is