Mignolet ekki með og óljóst hvers vegna

Simon Mignolet mun víst ekki standa á milli stanganna hjá …
Simon Mignolet mun víst ekki standa á milli stanganna hjá Liverpool í dag. AFP

Þrátt fyrir að hann glími hvorki við meiðsli né veikindi verður belgíski markvörðurinn Simon Mignolet ekki í leikmannahópi Liverpool í stórleiknum gegn Arsenal kl. 15 í dag.

Mignolet hefur varið mark Liverpool í fyrstu leikjum tímabilsins og því var búist við að hann myndi einnig gera það í dag, en bæði belgískir og enskir miðlar greina frá því að hann verði ekki einu sinni í hópnum.

Á belgíska vefmiðlinum hln.be segir að um „stórundarlega ákvörðun“ sé að ræða. Mignolet sé hvorki meiddur né veikur, ekkert hafi komið upp á á æfingu og ekkert sé hægt að setja út á frammistöðu markvarðarins að undanförnu.

Á vef Daily Telegraph segir að Mignolet hafi fengið þau skilaboð að hann fengi nú hvíld í kjölfarið á leiknum í Meistaradeild Evrópu í vikunni. Fram undan er hins vegar landsleikjahlé og þar sem Mignolet er ekki aðalmarkvörður Belgíu mun hann væntanlega ekki spila leik í að minnsta kosti tvær vikur.

Allt bendir til þess að Þjóðverjinn Loris Karius verji mark Liverpool í dag. Það yrði þá fyrsti deildarleikur hans á árinu 2017 en hann lék tíu deildarleiki fyrir áramót á síðustu leiktíð.

mbl.is