Wenger talar Meistaradeildina niður

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sem stýrði liðinu 19 sinnum í röð í Meistaradeild Evrópu en tókst það ekki á síðasta tímabili, segir að keppnin sé ekki jafn spennandi í dag og hún var á árum áður.

„Mér finnst ekki vera margir áhugaverðir leikir í riðlakeppninni,” sagði Wenger “Þú horfir bara á einn eða tvo leiki,“ sagði Wenger.

„Riðlakeppnin í Meistaradeildinni er orðin að rútínu. Þú sérð það á áhorfendum að keppnin hefur misst aðdráttarafl,“ sagði Wenger við enska fjölmiðla en áhorf á Meistaradeildina hefur farið niður á við á undanförnum árum. Auk þess hefur þróunin verið þannig að yfirleitt séu það sömu ríku klúbbarnir sem mætast á síðari stigum keppninnar.

Wenger sagði í síðasta mánuði að enska úrvalsdeildin hefði tekið við af Meistaradeildin hvað varðar mikilvægi fyrir félögin - en segist þó sakna keppninnar.

„Í hreinskilni sagt, já,“ sagði Wenger aðspurður um hvort hann sakni Meistaradeildarinnar. „En ég verð þó að taka það fram að ég á að baki 200 leiki í Meistaradeildinni. Það eru forréttindi,“ sagði Wenger.

Arsenal mætir WBA í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

mbl.is