Can daðrar við Juventus

Emre Can.
Emre Can. AFP

Emre Can, miðjumaður Liverpool, heldur áfram að daðra við ítalska meistaraliðið Juventus og og er upp með sér að vera orðaður við slíkt lið. Hann segist þó einbeita sér alfarið að leik sínum með Liverpool þessa dagana.

Samningur þessa 23 ára gamla Þjóðverja rennur út undir lok leiktíðarinnar en hann hefur átt í viðræðum við Liverpool nú í talsvert langan tíma um nýjan samning.

Can hefur skorað sjö mörk í 95 leikjum fyrir Liverpool frá því að hann gekk í raðir félagsins frá Bayer Leverkusen árið 2014.

„Það er alltaf heiður að fá tilboð frá nafntoguðu félagi en eins og er þá einbeiti ég mér að Liverpool,“ sagði Can við þýska fréttamiðilinn Kicker.

„Umboðsmaður minn sér um rest,“ sagði Can.

„Maður veit aldrei hvað gerist og ég veit ekki hvað Jürgen Klopp hefur í huga,“ hélt Can áfram.

Liverpool hefur átt erfitt uppdráttar í upphafi tímabils og er liðið í 8. sæti með aðeins þrjá sigra úr átta leikjum. Can hefur verið í byrjunarliðinu sex sinnum af þessum átta leikjum.

„Ég hef tekið framförum á mínum þremur árum hérna,“ sagði Can við The Times og segist hann njóta þess að spila fyrir Liverpool.

„Auðvitað getur maður stundum spilað betur en ég tel að þróunin á spilamennsku minni sé góð hingað til,“ sagði Can.

mbl.is