Hörður fékk sénsinn eftir 1148 mínútna bið

Hörður Björgvin Magnússon
Hörður Björgvin Magnússon mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon fékk sínar fyrstu mínútur á leiktíðinni í ensku B-deildinni er hann kom inn í lið Bristol City á 68. mínútu í tapi liðsins gegn Leeds. 

Fram að því hafði kappinn annað hvort verið utan hóps eða vermt tréverkið í leikjunum 12 í B-deildinni, og því um 1148 mínútur sem liðu án þess að Hörður hafi fengið sénsinn þrátt fyrir góðar frammistöður með landsliði og með Bristol í bikar.

Hörður Björgvin kom inn á á 68. mínútu en þá var staðan 3:0 fyrir Leeds og leikurinn nánast búinn.

Birkir Bjarnason kom inn á sem varamaður hjá Aston Villa á 86. mínútu er Villa vann góðan sigur á Fulham, 2:1, þar sem John Terry skoraði m.a. eitt marka Villa-manna. Aston Villa hefur 22 stig í 5. sæti.

Aron Einar Gunnarsson var ekki í leikmannahópi Cardiff vegna meiðsla í dag. Sömu sögu er að segja um Jón Daða Böðvarsson sem sagði frá því á Twitter í dag að hann hefði meiðst á kálfa.

Cardiff vann 1:0 sigur á Middlesbrough og er í 2. sæti með 27 stig.

Reading tapaði 2:1 gegn Sheffield United og hefur 12 stig í 20. sæti, tveimur stigum frá fallsæti.

mbl.is