„Þetta var slæmt“

Klopp á hliðarlínunni í dag.
Klopp á hliðarlínunni í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hló að varnarleik sinna manna þegar breskir fjölmiðlar ræddu við hann eftir 4:1-tapið gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu síðdegis.

„Þetta var slæmt. Slæmt, slæmt, slæmt,“ sagði Klopp eftir leikinn á Wembley. Hann bætti því við að það hefði litið út eins og Tottenham langaði meira að vinna leikinn.

„Tottenham lék vel en við gerðum þetta allt of auðvelt fyrir þá,“ sagði Klopp og benti á að hans menn hefðu gert mistök sem leiddu til marks í fyrstu tveimur mörkum Tottenham.

Liverpool minnkaði muninn í 2:1 en þriðja mark Tottenham kom í uppbótartíma í fyrri hálfleik. „Við brjótum af okkur, þetta eru okkar mistök.“

Klopp sagði að leiknum hefði verið lokið þegar Kane skoraði annað mark sitt og fjórða mark Tottenham í upphafi seinni hálfleiks. „Við berum ábyrgð á þessu og enginn annar. Við verðum að laga þetta,“ sagði knattspyrnustjórinn.

Hann var spurður hvað honum þætti um varnarleik Dejan Lovren í öðru marki Tottenham. Boltinn skoppaði þá yfir Lovren, datt fyrir Kane sem kom honum á Son og sá síðastnefndi skoraði.

„Ef ég hefði lent í þessum aðstæðum inni á vellinum hefði Harry [Kane] ekki fengið boltann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert