Fellaini er eftirsóttur

Marouane Fellaini.
Marouane Fellaini. AFP

Marouane Fellaini, Belginn hárprúði í liði Manchester United, er mjög eftirsóttur en framtíð hans hjá Manchester-liðinu er í mikilli óvissu.

Samningur Fellaini við Manchester United rennur út eftir tímabilið og verði forráðamenn United ekki búnir að gera við hann nýjan samning í janúar verður honum frjálst að ræða við önnur félög.

Fregnir herma að Fellaini hafi hafnað samningstilboði sem hann fékk frá Manchester United í september en þessi 29 ára gamli miðjumaður kom til liðsins frá Everton árið 2013.

Tyrknesku liðin Galatasaray og Besiktas hafa mikinn áhuga á að fá belgíska landsliðsmanninn til liðs við sig og sömu sögu er að segja um ítölsku liðin AC Milan og Roma.

Fellaini hefur spilað 142 leiki með Manchester United og hefur í þeim skorað 19 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert