Liverpool að tryggja sér landsliðsmann

Leon Goretzka í eldlínunni með Þýskalandi.
Leon Goretzka í eldlínunni með Þýskalandi. AFP

Liverpool hefur tryggt sér þjónustu þýska landsliðsmannsins Leon Goretzka og mun hann ganga í raðir félagsins frá Schalke strax 1. janúar næstkomandi.

Teamtalk greinir frá þessu og vitnar í spænskan miðil, en Goretzka er þar sagður hafa hafnað tilboði frá Barcelona þar sem það hafi ekki staðist launakröfur hans.

Samningur Goretzka rennur út næsta sumar og því er honum frjálst að hefja viðræður við önnur félög í janúar, en að sögn er Liverpool búið að komast að samkomulagi við Schalke um að fá hann strax til sín.

Goretzka er 22 ára gamall framliggjandi miðjumaður. Hann hefur skorað 19 mörk í 128 leikjum með Schalke og skorað sex mörk í níu landsleikjum fyrir Þjóðverja.

mbl.is