Hissa að enginn vilji stýra Everton

David Unsworth og Wayne Rooney.
David Unsworth og Wayne Rooney. AFP

David Unsworth, sem ráðinn var tímabundinn knattspyrnustjóri Everton í síðasta mánuði eftir að Ronald Koeman var rekinn, er steinhissa á því að enginn hafi verið ráðinn í starfið til lengri tíma.

Sam Allardyce, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, sagði í yfirlýsingu á dögunum að hann vilji ekki lengur starfið og þá hefur Watford hafnað því að félagið fái að ræða við Marco Silva.

Unsworth stýrði unglingaliði Everton og tók við aðalliðinu við brotthvarf Koeman, en hann stýrir liðinu í fimmta sinn um helgina þegar liðið mætir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er stórkostlegt félag og sama hversu lengi ég mun vera hérna þá geri ég mitt besta,“ sagði Unsworth, sem sjálfur hefur vonast eftir því að fá starfið til lengri tíma.

„Ég tala við framkvæmdastjórann á hverjum degi og hef talað við eigandann nokkrum sinnum. Samskiptin ganga vel en það sem mun gerast mun gerast. Ef það verður ég, frábært, en ef ekki þá tek ég í höndina á hverjum sem það verður,“ sagði Unsworth.

mbl.is