Hættum að spila fótbolta

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool voru eðlilega frekar liðurlútir eftir leikinn gegn Sevilla í Meistaradeildinni í fótbolta í kvöld.

Liverpool var í draumastöðu eftir fyrri hálfleikinn en liðið var þá 3:0 yfir en Sevilla átti frábæra endurkomu í seinni hálfleik og tókst að jafna metin í 3:3, áður en yfir lauk.

„Við hættum að spila fótbolta í seinni hálfleik. Við höfum eitt raunverulegt vopn sem er að spila fótbolta en við gerðum það ekki í seinni hálfleiknum. Það var í lagi að vera með sjálfsöryggi eftir fyrri hálfleikinn en vandamálið var að við hættum að spila fótbolta eins og við gerðum í fyrri hálfleik. Við vorum „passífir“ og féllum of langt til baka. Sevilla sýndi mikinn baráttuvilja og ég verð að hrósa liðinu fyrir það,“ sagði Klopp eftir leikinn.

Með sigri Liverpool tryggt sér sæti í 16-liða úrslitunum og það sem meira er tryggt sér sigur í riðlinum en fyrir lokaumferðina er Liverpool með 9 stig, Sevilla 8 og Spartak Moskva 6. Liverpool fær Spartak Moskva í heimsókn í lokaumferðinni 6. desember en Sevilla sækir Maribor heim.

„Mér líður eins og við höfum tapað en við gerðum áð ekki. Við eigum einn leik eftir svo þetta er enn þá í okkar höndum en þessa stundina er erfitt að kyngja þessu,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert