Liðsfélagi Gylfa kærður fyrir svindl

Oumar Niasse í baráttu um boltann gegn Leicester.
Oumar Niasse í baráttu um boltann gegn Leicester. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Oumar Niasse, samherja Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, fyrir að dýfa sér vísvitandi og fiska vítaspyrnu gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi.

Niasse lét sig falla eftir litla sem enga snertingu frá Scott Dann strax á fimmtu mínútu og fékk vítaspyrnu. Úr henni skoraði Leighton Baines fyrir Everton, en Niasse sjálfur átti svo eftir að jafna metin í 2:2 sem voru lokatölur leiksins.

Niasse hefur tímann fram á mánudag í næstu viku til þess að svara kærunni.

mbl.is