Gylfi sannfærði blaðamann BBC

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Everton. AFP

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, var í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC og var fljótur að vinna fréttamanninn á sitt band.

Fréttamaðurinn spurði Gylfa þá hvort það væri þess virði að kaupa hann í draumalið sitt í úrvalsdeildinni. Um er að ræða leik í kringum deildina þar sem menn velja leikmenn og fá stig ef þeir standa sig vel. Gylfi var fljótur til svars:

„Já, mér finnst það. Ég sagði við félaga mína fyrir nokkrum vikum að þeir ættu núna að stilla mér upp og ég hef náð í nokkur stig fyrir þá síðan,“ sagði Gylfi, sem kostar þó skildinginn í leiknum enda dýrasti leikmaður í sögu Everton.

„Já, en ef þú leggur traust á mig þá mun ég vonandi skila þér stigum,“ sagði Gylfi við fréttamanninn sem sagðist vera sannfærður.

mbl.is