Við þurftum að tapa leik

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Eftir 28 leiki í röð án ósigurs kom að því að Manchester City beið ósigur en liðið tapaði fyrir Shakhtar Donetsk, 2:1, í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gærkvöld og það í 100. meistaradeildarleik Pep Guardiola, þjálfara City.

„Þetta er sárt. Það er aldrei gaman að tapa en við þurftum að tapa leik. Þetta er gott fyrir félagið og okkur alla. Fólk talar um hluti þegar þú vinnur en nú getur það gleymt þeim. Við komum hingað búnir að vinna riðilinn. Við reyndum að vinna en það gekk ekki.

Nú er næsti leikur á sunnudaginn og fótboltinn snýst um hvernig þú kemur til baka eftir góða og slæma tíma og reynir að halda stöðugleika,“ segir Guardiola en hans menn mæta Manchester United í risaslag í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á sunnudaginn.

„Við höfum oft sagt að við getum ekki unnið alla leiki og það kæmi að því að við töpuðum leik. Nú tekur við önnur keppni, enska úrvalsdeildin.“

<br/><br/>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert