Swansea rekur stjórann

Paul Clement.
Paul Clement. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Swansea var nú rétt í þessu að reka knattspyrnustjórann Paul Clement úr starfi eftir afleitt gengi liðsins síðustu vikur.

Swansea hefur ekki unnið í síðustu sex leikjum og í 18 leikjum í deildinni á tímabilinu hefur Swansea aðeins þrívegis fagnað sigri. Liðið er á botni deildarinnar með 12 stig. Síðasti leikur Clement í starfi var tap gegn Everton á mánudag, þar sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði meðal annars glæsilegt mark gegn sínu gamla liði.

Clement var ráðinn í byrjun janúar á þessu ári og var því í tæpt ár í starfi hjá Swansea. Hann var áður aðstoðarþjálfari Bayern München og gegndi áður því starfi hjá Chelsea, Real Madrid og PSG. Clement hefur einnig starfað sem þjálfari hjá Derby, Fulham, Blackburn Rovers og hjá írska U-21 árs landsliðinu. 

mbl.is