Átti enga möguleika á að halda honum

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sat fyrir svörum á vikulegum fréttamannafundi í dag þar sem hann var spurður út í félagaskipti Brasilíumannsins  Philippes Coutinhos, sem er kominn til Barcelona.

„Það var enginn annar möguleiki. Ef einhver er reiður eða vonsvikinn þá er það knattspyrnustjóri liðsins. Við reyndum allt til að telja Philippe á að vera hjá okkur áfram. Hann fór frá Liverpool aðeins fyrir eitt félag, Barcelona, en Liverpool barðist hart.

Það er 100% ljóst að það var enginn möguleiki fyrir mig að nota hann síðari hluta tímabilsins. Nú er þetta búið. Þannig er nú það,“ sagði Klopp en lærisveinar hans búa sig nú undir stórleik gegn Manchester City sem fram fer á Anfield klukkan 16 á sunnudaginn.

Naby Keita kemur til Liverpool frá þýska liðinu Leipzig í sumar. Spurður hvort sá möguleiki sér fyrir hendi að leikmaðurinn komi fyrr og gangi í raðir Liverpool nú í janúarglugganum sagði Klopp;

„Hann er leikmaður Leipzig og ég veit hann verður leikmaður Liverpool í sumar,“ sagði Þjóðverjinn.mbl.is