Guardiola svaraði engu

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var spurður út í hugsanleg kaup félagsins á Sílemanninum Alexis Sánchez frá Arsenal á fréttamannafundi í dag í aðdraganda leiks hans manna gegn Liverpool á sunnudaginn.

„Nú hugsa ég bara um leikinn við Liverpool. Ef þetta væri minn leikmaður þá myndi ég ekki vilja að minn knattspyrnustjóri talaði um aðra hluti. Ég skil hvers vegna þið spyrjið um Sánchez en öll mín einbeiting er á Liverpoolleikinn. Ég reyni að fá leikmenn mína til að gera slíkt hið sama og einbeita sér að leiknum en ekki einhverju utan vallarins,“ sagði Guardiola.

Sánchez hefur verið mikið til umræðu síðustu dagana en ekki liggur ljóst fyrir hvort hann fer frá Arsenal í janúarglugganum en samningur hans við Arsenal rennur út í sumar. Manchester City hefur sýnt áhuga á að fá Sílemanninn sem og Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert