Refirnir öflugir en markalaust á Brúnni

Andreas Christensen, varnarmaður Chelsea, og Riyad Mahrez, eftir viðskipti þeirra ...
Andreas Christensen, varnarmaður Chelsea, og Riyad Mahrez, eftir viðskipti þeirra innan teigs Chelsea. Alsírbúinn vildi víti en fékk ekki. AFP

Chelsea og Leicester gerðu markalaust jafntefli á Stamford Bridge í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fimm aðrir leikir fóru fram á sama tíma og þar biðu Jóhann Berg Guðmundson og félagar í Burnley lægri hlut gegn Crystal Palace, 1:0. 

Á Stamford Bridge var sótt á báða bóga í fyrri hálfleik en það voru gestirnir frá Leicester sem voru ívið öflugri. Þeir áttu 12 marktilraunir í fyrri hálfleik sem er það mesta sem andstæðingar Chelsea á Stamford Bridge hafa náð í úrvalsdeildinni síðan á leiktíðinni 2003-04. Þá stýrði einmitt Claudio Ranieri Chelsea með Eið Smá Guðjohnsen innanborðs en Ítalinn gerði eins og frægt er orðið Leicester að Englandsmeisturum fyrir tveimur árum.

Riyad Mahrez með skot á mark Chelsea í dag.
Riyad Mahrez með skot á mark Chelsea í dag. AFP

Riyad Mahrez fór fyrir liði gestanna og var sífellt ógnandi en hann hefur verið orðaður við brottför frá Leicester í félagaskiptaglugganum sem nú er opinn. Ben Chilwell fékk rauða spjaldið í síðari hálfleik hjá Leicester en sóknarleikur Chelsea var ekki mjög beittur stóran hluta leiks. Lokatölur því 0:0. Chelsea hefur 47 stig í 3. sætinu en Leicester 31 stig í 8. sæti eftir leik dagsins.

Bakary Sako skoraði sigurmarkið gegn Burnley á 12. mínútu. Jóhann Berg Guðmundsson fór af velli eftir 86 mínútna leik. Burnley hefur 34 stig í 7. sæti og ekki unnið í síðustu sex úrvalsdeildarleikjum. Palace 25 stig í 12. sæti en Roy Hodgson hefur heldur betur rétt skútuna við hjá liðinu en hann tók við því á botninum.

Bakary Sako skoraði sigurmark Palace.
Bakary Sako skoraði sigurmark Palace. AFP

West Ham vann góðan sigur á Huddersfield, 4:1. Mark Noble kom liðinu yfir í fyrri hálfleik en Joe Lolley jafnaði metin á 40. mínútu. Marko Arnautovic kom West Ham yfir á ný strax í byrjun síðari hálfleiks og Manuel Lanzini lokaði leiknum fyrir hamrana á 56. og 61. mínútu. West Ham hefur 25 stig í 11. sætinu en Huddersfield 24 stig í 13. sæti.

Mark Noble fagnar öðru marka Lanzini í dag með Argentínumanninum. ...
Mark Noble fagnar öðru marka Lanzini í dag með Argentínumanninum. Noble komst sjálfur einnig á blað. AFP


Newcastle og Swansea gerðu 1:1 jafntefli nyrðra. Jordan Ayew kom gestunum yfir á 60. mínútu en Joselu jafnaði metin fyrir heimamenn skömmu síðar. Swansea er á botninum með 17 stig og er fjórum stigum frá öruggu sæti. Newcastle hefur 23 stig í 14. sæti.

Abdoulaye Doucoure tryggði Watford eitt stig á heimavelli gegn Southampton með marki á lokamínútunni. James Ward-Prowse skoraði bæði mörk Southampton sem var 2:0 yfir í hálfleik. Andre Gray minnkaði muninn á 58. mínútu. Watford hefur 26 stig í 10. sæti en Southampton 21 stig í 16. sæti.

Þá vann WBA 2:0 sigur á Brighton en það voru reynsluboltarnir Jonny Evans og Craig Dawson sem skoruðu mörkin hvor í sínum hálfleiknum. WBA er í fallsæti með 19 stig en Brighton 23 stig í 15. sæti.

Lokatölur:

0:0 Chelsea - Leicester
1:0 Crystal Palace - Burnley (Sako 21.)
1:4 Huddersfield - West Ham (Lolley 40.; Noble 25., Arnautovic 46., Lanzini 56., 61.)
1:1 Newcastle - Swansea (Joselu 68.; Ayew 60.)
2:2 Watford - Southampton (Gray 58., Doucoure 90.; Ward-Prowse 20., 44.)
2:0 WBA - Brighton (Evans, 4., Dawson 55.)

Chelsea 0:0 Leicester opna loka
90. mín. Lokatölur í leikjunum: 0:0 Chelsea - Leicester 1:0 Crystal Palace - Burnley (Sako 21.) 1:4 Huddersfield - West Ham (Lolley 40.; Noble 25., Arnautovic 46., Lanzini 56., 61.) 1:1 Newcastle - Swansea (Joselu 68.; Ayew 60.) 2:2 Watford - Southampton (Gray 58., Doucoure 90.; Ward-Prowse 20., 44.) 2:0 WBA - Brighton (Evans, 4., Dawson 55.)
mbl.is