Tvö mörk Kane í þægilegum sigri

Harry Kane fagnar marki sínu fyrir Tottenham Hotspur gegn Everton …
Harry Kane fagnar marki sínu fyrir Tottenham Hotspur gegn Everton í dag með Son Heung-min, samherja sínum. AFP

Tottenham Hotspur átti ekki í erfiðleikum að leggja Everton að velli þegar liðin mættust í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Wembley í dag. Lokatölur í leiknum urðu 4:0 Tottenham Hotspur í vil.

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Everton, en hann líkt og aðrir leikmenn liðsins komust ekki í takt við leikinn og náðu sér ekki á strik í leiknum. 

Son Heung-min braut ísinn fyrir Tottenham Hotspur þegar hann stýrði skoti Serge Aurier í rétta átt í mark Everton um miðbik fyrri hálfleiks. Son skoraði þarna sitt áttunda deildarmark á leiktíðinni. 

Stöðugleiki í markaskorun Harry Kane

Harry Kane bætti svo við tveimur keimlíkum mörkum með tólf mínútna millibili í upphafi síðari hálfleiks. Kane var þá réttur maður á réttum stað og skoraði með skotum af stuttu færi.

Kane er nú markahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk, en þetta er fjórða árið í röð sem hann skorar 20 mörk eða meira í deildinni á einu keppnistímabili. Kane hefur mest skorað 29 deildarmörk á einni leiktíð.

Christian Eriksen rak svo síðasta naglann í líkkistu Everton þegar hann batt endahnútinn á einkar laglega sókn Tottenham Hotspur og skoraði sjötta deildarmark sitt á leiktíðinni.

Tottenham Hotspur jafnaði Liverpool að stigum með þessum sigri, en liðin hafa hvort um sig 44 stig í fjórða til fimmta sæti deildarinnar. Það er ljóst að fram undan er hörð barátta um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Liverpool á leik til góða á Tottenham Hotspur, en liðið mætir Manchester City á Anfield síðdegis á morgun. Everton er áfram í níunda sæti deildarinnar með 27 stig eftir leiki dagsins.  

Son Heung-min skorar fyrra mark Tottenham Hotspur í leik liðsins …
Son Heung-min skorar fyrra mark Tottenham Hotspur í leik liðsins gegn Everton í dag. AFP
Cenk Tosun leikur sinn fyrsta leik fyrir Everton þegar liðið …
Cenk Tosun leikur sinn fyrsta leik fyrir Everton þegar liðið mætir Tottenham Hotspur í dag. AFP
Tottenham 4:0 Everton opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með öruggum 4:0-sigri Tottenham Hotspur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert