Fer til United vegna peninganna

Alexis Sanchez.
Alexis Sanchez. AFP

Líklegast þykir að Sílemaðurinn Alexis Sánchez gangi til liðs við Manchester United frá Arsenal og gætu þau félagaskipti gengið í gegn á morgun.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, greindi frá því fyrir leik sinna manna gegn Bournemouth í gær að framtíð Sánchez myndi skýrast á næstu tveimur sólarhringum en Wenger valdi Sílemanninn ekki í leikmannahóp sinn.

Manchester-liðin, City og United, eru í baráttu um að fá að njóta krafta Sánchez og bendir flest til þess að United ætli að hafa betur í þeirri baráttu.

„Þetta verða frábær kaup fyri United en ég er hissa á að hann vilji ekki fara til Manchester City eins og liðið spilar. Það hlýtur að vera skemmtilegt að vera sóknarmaður í liði Pep Guardiola. Eina ástæðan fyrir því að hann mun velja United er fjárhagslegs eðlis,“ segir Jamie Carragher sparkspekingur á Sky Sports.

Breska blaðið Daily Mail segir að United sé reiðubúið að gera Sánchez að hæst launaða leikmann ensku úrvalsdeildarinnar en hann fengi 350 þúsund pund á viku sem jafngildir tæpum 50 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert