Mun leita ráða hjá Ferguson

Ryan Giggs.
Ryan Giggs. AFP

Ryan Giggs, nýráðinn þjálfari velska karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun leita ráða hjá Sir Alex Ferguson, sínum gamla þjálfara til langs tíma hjá Manchester United. Þetta kemur fram í frétt Sky Sports í dag.

Giggs lék í 24 ár hjá United en hann var formlega tilkynntur sem þjálfari velska liðsins í dag. Um er að ræða hans stærsta starf sem knattspyrnuþjálfari til þessa en hann tók tímabundið við starfinu hjá United tímabilið 2013-14 þar sem hann stýrði liðinu í fjórum leikjum. Hann var svo ráðinn aðstoðarmaður Louis van Gaal sem stýrði liðinu næstu tvær leiktíðir.

Spurður í dag hvort hann mundi leita ráða hjá Ferguson sagði hann að annað væri heimska.

„Já, það væri heimskulegt að gera það ekki. Hann er einn af bestu þjálfurum sögunnar,“ sagði Giggs.

„Ég er búinn að ræða við hann á síðasta sólarhring og ég mun ræða við hann enn frekar,“ sagði Giggs en ítrekaði þó að hann myndi að sjálfsögðu stýra þessu á eigin forsendum. Hann væri jú sjálfstæð persóna.

„Ég mun nota það sem ég hef lært frá þeim stjórum sem ég hef haft hjá félagsliðum og landsliðum, en ég er sjálfstæð persóna,” sagði Giggs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert