Rostov reynir aftur við Hörð Björgvin

Hörður Björgvin Magnússon.
Hörður Björgvin Magnússon. Ljósmynd/Bristol City

Rússneska knattspyrnuliðið Rostov hyggst gera aðra tilraun til að fá landsliðsmanninn Hörð Björgvin Magnússon til liðs við sig frá enska B-deildarliðinu Bristol City.

Staðarblaðið í Bristol, Bristol Post, greinir frá þessu í dag en litlu mátti muna að Hörður Björgvin gengi í raðir rússneska liðsins á lokadegi félagaskiptagluggans í ágúst. Hörður Björgvin hafði skrifað undir lánssamning en pappírarnir skiluðu sér ekki í tæka tíð áður en fé­laga­skipta­glugg­inn lokaðist.

Tveir íslenskir landsliðsmenn leika með Rostov, miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason og framherjinn Björn Bergmann Sigurðsson sem Rostov keypti á dögunum frá norska úrvalsdeildarliðinu Molde.

Þá kemur fram í Bristol Post að ítalska A-deildarliðið SPAL hafi sýnt áhuga á að fá Hörð Björgvin til liðs við sig en vinstri bakvörðurinn hefur spilað töluvert mikið með Bristol-liðinu síðustu vikurnar eftir að hafa verið mikið utan liðsins framan af tímabilinu.

Hörður hefur komið við sögu í 12 af 27 leikjum Bristol City í deildinni en liðið mætir Manchester City í síðari undanúrslitaleiknum í ensku deildabikarkeppninni í næstu viku. City marði sigur í fyrri leiknum á heimavelli, 2:1, þar sem Sergio Agüero skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert