Stoke ekki unnið á Old Trafford í 42 ár

Leikmenn Manchester United fagna marki.
Leikmenn Manchester United fagna marki. AFP

Manchester United getur minnkað forskot granna sinna í Manchester City niður í 12 stig en United tekur í kvöld á móti liði Stoke í lokaleik 23. umferðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Antonio Valencia gæti snúið aftur inn í lið United en hann er búinn að jafna sig af meiðslum sem hafa haldið honum frá keppni síðustu vikurnar. Ashley Young tekur út leikbann og þeir Michael Carrick, Eric Bailly og Zlatan Ibrahimovic eru allir á sjúkralistanum. Miðvörðurinn Ryan Shawcross getur ekki spilað með Stoke í kvöld vegna meiðsla.

Stoke hefur ekki átt góðu gengi að fagna á Old Trafford en liðið hefur ekki unnið á þeim velli í síðustu 17 leikjum sínum í öllum keppnum en Stoke fagnaði síðast sigri á Old Trafford árið 1976. Síðustu þremur viðureignum liðanna hefur lyktað með jafntefli.

Manchester United hefur aðeins tapað tveimur leikjum á heimavelli í 47 leikjum undir stjórn José Mourinho og komu bæði töpin gegn Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert