Jón Daði með bikarþrennu fyrir Reading

Jón Daði Böðvarsson kemur Reading í 1:0 í leiknum í …
Jón Daði Böðvarsson kemur Reading í 1:0 í leiknum í kvöld. Ljósmynd/@ReadingFC

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir Reading í kvöld þegar lið hans sigraði Stevenage, 3:0, í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar á heimavelli.

Þetta var annar leikur liðanna sem höfðu gert jafntefli á heimavelli Stevenage sem leikur í D-deildinni. Jón Daði kom Reading yfir með góðu skoti á 32. mínútu og hann bætti við marki einni mínútu fyrir hlé með hörkuskalla eftir góða sókn Reading.

Selfyssingurinn innsiglaði síðan þrennuna á 64. mínútu en þá batt hann enda á laglega sókn Reading með því að renna boltanum í netið af markteignum.

Jón Daði lék allan tímann en Axel Andrésson, sem er kominn aftur til Reading eftir lánsdvöl hjá Torquay, sat á varamannabekk liðsins allan leikinn. 

Reading mætir Sheffield Wednesday í 4. umferð en Wednesday vann Carlisle, 2:0, í kvöld.

Leicester komst áfram með því að sigra Fleetwood, 2:0, þar sem Kelechi Ihenacho skoraði  bæði mörkin. Leicester mætir Peterborough.

Cardiff vann Mansfield 4:1 á útivelli og mætir Manchester City í 4. umferð. Aron Einar Gunnarsson er frá keppni hjá Cardiff vegna aðgerðar á ökkla sem hann gekkst undir í desember.

Framlenging stendur yfir í leik West Ham og Shrewsbury en staðan var 0:0 eftir venjulegan leiktíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert